Fé framundan

Hvað varð um yfirdráttinn?

 

Yfirdráttarlán eru með dýrustu lánum sem bjóðast og hár, viðvarandi yfirdráttur getur verið vísbending um að pottur sé brotinn fjármálum einstaklinga og heimila. Yfirdráttarlán bera afar háa vexti. Þau eru yfirleitt neyslulán og eru merki um fyrirframeyðslu launa. Það er erfitt að finna betri sparnað en að greiða niður yfirdráttarlán. Þess vegna ætti að vera keppikefli allra að greiða upp yfirdráttarlán sín sem fyrst.

Seðlabankinn hefur nú í fyrsta sinn frá því fyrir bankahrun birt bráðabirgðagögn um íslenskt bankakerfi.  Þegar rýnt er í tölurnar kemur fram að yfirdráttarlán til heimila í lok september 2008 námu rúmum 78 milljörðum króna. Þremur mánuðum síðar, í desemberlok 2008, höfðu þau lækkað um 40% og námu tæpum 47 milljörðum. Af því mætti draga þá ályktun að meðalyfirdráttur hvers einasta heimilis hafi lækkað úr tæpum 590.000 kr. í rúmar 350.000 kr. Miðað við algenga vexti ætti meðalheimilið nú að greiða um 50.000 kr.  á ári í vexti af yfirdráttarlánum í stað rúmra 80.000 kr. miðað við stöðuna eins og hún var fyrir hrun.

Eða hvað? Er önnur skýring á þessari lækkun yfirdráttar heimilanna? Getur verið að hagur heimilanna hafi vænkast svo á þessum þremur mánuðum sem liðu eftir hrun að þau gátu greitt niður 40% af yfirdráttarlánum sínum? Voru yfirdráttarlán afskrifuð í bönkunum?

Fyrirspurn frá Stofnun um fjármálalæsi til Seðlabanka Íslands leiddi í ljós að bankinn færir yfirdráttarlán ekki sem stöðu gagnvart viðskiptavinum, heldur eins og þau eru bókfærð í bönkunum. Gögn Seðlabankans sýna þannig ekki hvort yfirdráttarlán heimilanna hafi hækkað eða lækkað. Þau sýna bara að bókfærður yfirdráttur heimilanna í gömlu bönkunum var lækkaðir um 40%. Með nokkurri einföldun og með fyrirvara um að tölur Seðlabankans séu einungis til bráðabirgða, má leiða að því líkur að nýju bankarnir hafi keypt yfirdrátt heimilanna með 40% afslætti.

Það er vel að yfirdráttur heimilanna sé að lækka í bókum bankanna. Vonandi fá heimilin notið þess og að hann lækki líka í bókhaldi heimilanna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 30. maí, 2010